Að vera sykurlaus

Þá erum við stelpurnar í átakinu hálfnaðar. Þetta ferðalag hófst á því að taka ákvörðun um breyttan lífsstíl og við ákváðum einnig að sniðganga allan sykur. Það er nú meira mál en maður heldur því sykur leynist víða í allri fæðu. Fyrstu 2 vikurnar voru hreint helvíti fyrir mig. Bæði hætti ég að borða sykur og drekka gosdrykki þannig að ég átti eiginlega bara hrikalega bágt. Á þriðju viku fór ég að átta mig á því hve mikið betur mér leið. Líkaminn var ekki eins stífur og stirður, bólgur höfðu minnkað og bjúgur sem oft sótti á mig var algjörlega horfinn. Í dag er ég svo sátt við þessa ákvörðun. Það er hægt að bæta mörgu öðru góðu inn fyrir sykurát og nammipúkinn minn er gjörsamlega týndur og ég finn hann ekki þó ég reyni. Ég á mér uppáhalds "nammi" sem ég kaupi og varðveiti vel og enginn fær nema ég. Lífrænu döðlurnar hjá Gló eru nammið mitt, þegar ég uppgötvaði þessa dásemd varð ég sátt. Ég fer á föstudögum og kaupi mér laugardagsnammið mitt 3 stk. döðlur í brúnum bréfpoka og er eins og krakki í sælgætisbúð. Harðfiskurinn er líka nammið mitt og svo eru ávextir allt í einu orðnir svo góðir. Nammikaup á heimilinu hafa algjörlega stöðvast og gosdrykkir eru keyptir spari fyrir fjölskyldumeðlimi. Þar sem ég er innkaupastjóri heimilisins þá er innihald ískápssins orðið mun heilsusamlegra fyrir alla á heimilinu og enginn kvartar, sem kemur mér á óvart. Allir eru tilbúnir að prufa nýtt fæði, skipta út kartöflum fyrir sætar kartöflur, bygg í stað hrísgrjóna, hollt brauð í stað hveitibrauðs og sykurlaust álegg í stað þess sem er stútfullt af sykri. Já álegg inniheldur nefnilega sykur í flestum tilfellum. Núna er ég vongóð um að næstu 5 vikur verði bara algjör sæla. Ég finn að ég er að styrkjast og allt að verða auðveldara í ræktinni, kílóin hverfa og sólin hækkar á lofti - hvað gæti verið berta ? Gleðilegt sumar elskurnar !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband