Enn á lífi....og líður vel

Já ég er enn á lífi og mér líður frábærlega. Að léttast í sumarfríinu er auðvitað bara dásamlegt og ég á það engum að þakka nema sjálfri mér. Að breyta um lífsstíl er bara svolítið mikið mál og að halda það út er enn meira mál en hverrar stundar virði því uppskeran er bara yndisleg.Sumarið býður upp á alls konar freistingar, góðan mat og ís í sólinni, sukk í sumarbústað og hið ljúfa líf á sólarströnd. Ég upplifði þetta allt í sumar en bara á góðan máta því það er hægt að eiga góðar stundir og borða hollar freistingar án þess að missa sig í öldudal óhollustunnar. Þetta snýst alfarið um hugarfar, hvatningu já hvatningu sem mig hefur ekki vantað. Fólk stoppar mig á götu og hrósar mér og hvetur mig áfram segir mig líta svo vel út og hafa yngst um mörg ár. Það er alveg rétt mér líður enn og aftur frábærlega. Ég hlakka til að klára mitt markmið og vonandi get ég það áður en árið er liðið. Til þess að klára þetta markmið mitt og komast yfir lokalínuna þá þarf ég stuðning og hvatningu og skemmtilegt samferðafólk í ræktinni og þetta allt finn ég hjá Hreyfingu.Ég vil hverja alla að kíkja á bæklinginn frá þeim sem kom út um miðjan ágúst. Mjög veglegur með fullt af skemmtilegum ráðleggingum og þeim tímum sem Hreyfing býður uppá.Ég hef þegar skráð mig á námskeið og mun halda áfram veginn og styrkja mig og létta. Það er svo gaman að upplifa alla litlu sigrana. Bara það að geta hoppað um á öðrum fæti var ekki sjálfsagt mál í mars þegar ég byrjaði ó nei ég gat það bara engan veginn. Í tíma síðast í gær sveif ég um á bleiku skýi því ég gat gert æfingu sem ég hafði aldrei getað áður og þvílíkt adrennalínbúst fyrir egóið og bara kroppinn minn, það fer enn sæluhrollur um mig. Ég vakna á hverjum morgni og hlakka til að hreyfa mig og borða hollt og gott. Um daginn fjárfesti ég í yndislegum hjólafák og er hann stóra ástin í lífi mínu þessa dagana. Að geta hjólað um er frábær hreyfing, algjör afslöppun fyrir hugann og sérlega skemmtilegt. Ég hef hjólað þó nokkuð til vinnu frá Hafnarfirði í Rvk um 12 km hvora leið og það er svo gaman að upplifa aukinn kraft og aukið úthald með hverjum degi.Þessir mörgu litlu sigrar gera svo margt stórt. Það sem hvetur mig einnig áfram er að ég á 2 kg í tölu á vigtinni sem ég hef ekki séð í 20 ár. Það kallar maður sigur !

 


Leiðarlok.... ó nei.

"Átakið búið ?" spyrja mig allir þessa dagana. Nei! er svarið mitt því það er rétt að hefjast.Vissulega er hið "formlega átak" sem ég hóf lokið þar sem ég var undir eftirliti eins og ég vil kalla það. Sjálf hef ég tekið ákvörðun um að kalla þetta ekki "átak" heldur breyttan lífsstíl. Vissulega er átak að koma sér upp úr sófanum, hætta að borða óhollt og setja sjálfa sig í fyrsta sæti og fara að hreyfa sig. En það er ekkert betra að bíða með það til morguns, um að gera að byrja strax. Þegar ég var valin úr hópi kvenna til að taka þátt í Heilsuferðalagi með Hreyfingu og Smartlandi var ég eiginlega komin alveg í botninn á sófanum. Það var mikið átak að koma sér úr þessum sófa og eiginlega að umturna lífi sínu til hins betra. Ég er svo þakklát fyrir þetta tækifæri og mig langar aldrei að snúa til baka. Sykurleysi og hreyfing er bara minn lífsstíll núna og ég er ekki í neinum öfgum varðandi það. Ég borða allan mat en reyni að útiloka allan sykur og alla unna matvöru. Ég hreyfi mig 6 sinnum í viku því mér finnst það gaman.Það er svo margt annað gott hægt að borða.Sykurinn hefur svo slæm áhrif á líkamann, bólgur og bjúgur og maður verður svo stirður það finnur maður þegar neyslu hans er hætt. Einnig finn ég bara mun á öllum liðleika. Í nóvember sl.greindist ég með MS sjúkdóminn sem var búinn að vera að hrjá mig eflaust undanfarin ár. Það var hálfgerður dauðadómur fannst mér að fá þá niðurstöðu frá lækni. Margir hefðu með þá greiningu haldið áfram að sitja í sófanum og láta sér líða illa. Ég ákvað hins vegar að setja þennan sjúkdóm aðeins á bak við eyrað taka þau lyf sem mér voru ráðlögð og sjá hvað ég gæti reynt á líkamann. Ég hlustaði því mjög vel á líkamann og byggði mig upp á mínum hraða og árangurinn lét ekki á sér standa enda með hana Önnu Eiríks mér við hlíð á hverjum einasta degi ef eitthvað bjátaði á. Í dag finn ég mjög lítið fyrir þessum sjúkdómi en veit að ég þarf að fara vel með mig en hreyfingin er að bjarga mér svo mikið og mataræðið. Ég hef trú á því að við getum oft "læknað" okkur sjálf með réttu fæði, hreyfingu og hugarfari. 11kg., tugir sentimetra og fituprósentan niður um 8% er bara bónus ofan á þá líðan sem fylgir breyttum líffstíl.Einnig get ég ekki hætt að dásama vítamínin frá Solaray þau hafa bjargað mér.Nú held ég bara áfram verð með smá blogg hér fram á haustið því ég er ekki nærri hætt. 1/3 takmarksins er náð og ég stefni að klára 2/3 þess fyrir áramótin. Nú er sumarið framundan með alls konar möguleika á hreyfingu sem ég ætla að nýta, sumarfrí á sólarströnd og bara bjart framundan. Ég hvet alla sem voru í sömu sporum og ég að leita sér hjálpar og stuðnings. Hreyfing býður upp á svo margt, mér hefur ekki leiðst þar eitt augnablik og mun halda ótrauð áfram. Takk fyrir allan stuðninginn sem hefur komið út ótrúlegustu áttum það hvetur mann ótrúlega mikið. Marta María .... I O U <3


Að leiðarlokum.....úr hreiðrinu

Kæru vinir, nú fer þessu Heilsuferðalagi Smartlands og Hreyfingar að ljúka, ég er búin að vera eins og ungi í hreiðri, umvafin hlýju og stuðningi en nú er komið að því að fljúga úr hreiðrinu og takast á við raunveruleikann... ein, með fleyga vængi og með fullt af stuðningi frá ykkur sem hafið fylgst með mér berjast í hreiðrinu. Já mér finnst ég vera eins og lítill ungi sem er að uppgötva flugið og hversu frábært og yndislegt það er. Þessar síðustu 10 vikur hafa verið allt of fljótar að líða. Ég er búin að eignast margar vinkonur bæði í hópnum okkar og í ræktinni. Breyttur líffstíll er orðinn minn stíll og ég get ekki hugsað mér að líta til baka. Sakna einskis. Það er svo gaman þegar vel gengur og þegar maður fær allan þann stuðning sem maður þarf svo á að halda því það getur verið snúið, erfitt, tekið á taugarnar og jafnvel mikil barátta við manns innra sjálf að snúa lífi sínu við og feta betri veg. Hversu oft þessar 10 vikur hef ég ekki átt í rökræðum við púkann og engilinn á öxlum mér. Ég er svo glöð að hafa tekist þetta með hjálp allra hjá Hreyfingu, frá Önnu Eiríks sem veit alveg hvað hún segir og starfsfólkinu hennar frá henni Mörtu minni sem er alltaf kát og glöð og tilbúin að gera þetta allt svo skemmtilegt og gefandi með okkur með ýmsum frábærum uppákomum, frá Heilsu hf. sem hefur kennt mér að góð vítamín skipta öllu máli og að fá góða ráðleggingu varðandi inntöku þeirra skiptir gríðarlega miklu máli og þar eru bara sérfræðingar sem kunna til verka. Hversu oft hafið þið ekki séð auglýsingar í blöðunum um að þetta og hitt fæðubótaefnið geri ykkur svo gott og þið rjúkið út í búð og byrjið að taka þetta inn.... og hvað gerist svo ? þetta liggur ónotað ínni í skáp. Já svona var ég þar til ég fékk að kynnast vítamínum og bætiefnum frá Solaray og kynnningu á hvað hentar mér. Nú get ég ekki án þeirra verið þökk sé Ingu næringarþerapista í Heilsuhúsinu. Nú svo má ekki gleyma Air.is og Speedo sem sáu um að við stelpurnar gætum litið vel út í ræktinni og í sundinu og Bláa Lónið fyrir yndislegt dekur sem kenndi mér að njóta þess að slappa af og eiga tíma fyrir mig það er öllum konum nauðsynlegt að taka frá tíma fyrir sig sjálfar og gleyma amstri dagsins eitt augnablik. Nú fer ég inn í daginn full af sjálfstrausti, líður óstjórnlega vel, full af orku. Já ég svo sannarlega fann mun á orkunni minni í tíma um helgina í ræktinni, allt í einu áttaði ég mig á því að styrkur minn, úthald, liðleiki og lífgleðin voru í hámarki ég fann að á þessum 10 vikum hefur líkami minn tekið stakkaskiptum, úr þessum þreytta, auma og stirða líkama í mjúkan og liðugan kropp sem er stöðugt að taka breytingum og auka úthald. Svo eru það lika þessir litlu hlutir sem gleðja mann svo mikið... hver kannast ekki við sem hefur náð að létta sig þessa tilfinningu þegar lærin hætta að nuddast saman, þegar auðvelt er að reima skóna fyrir börnin, þegar fötin verða þægileg og húðin geislar og síðast en ekki síst að sturtuklefinn heima við er allt í einu orðinn miklu stærri ...! Já það eru þessi augnablik sem gera þetta allt erfiðisins viði. Takið heilsu, hreyfingu og breyttan lífsstíl inn í líf ykkar og fáið ráðgjöf það marg borgar sig. Þar til næst.... eigið góðan dag!


Sumarkjólar og berir leggir

Nú er ég alveg viss um að sumarið er komið. Var í góðri göngu um Ástjörnina í Hafnarfirði um helgina og það er ákveðin lykt komin í loftið sem segir mér það. Bæði úti og í mínu hjarta er sólin farin að skína lengur hvern dag.Síðustu vikur eru búnar að vera svo skemmtilegar og jafnframt einnig erfiðar. Sumir dagar erfiðari en aðrir en allt orðið svo miklu léttara. Léttara að ganga, léttara að taka á því í ræktinni þó langt sé í að ég fari eitthvað að hlaupa að ráði, léttara að sinna áhugamálum og lundin léttari ekki bara út af hækkandi sól heldur líka af því að afrakstur erfiðisins er að koma í ljós. Litlu hnullin á bakinu að hverfa, maginn að minnka, undirhakan að hverfa og ökklarnir farnir að koma í ljós, skórnir orðnir of stórir og fötin farin að hanga. En ég á nú ekki í vandræðum með það því ég eins og margar aðrar konur á margar deildir í fataskápnum XL deildin, L og M deildin já maður hefur verið eins og jójó á viktinni undanfarin ár og á því ýmsar stærðir í fataskápnum. Ég þarf ekkert að fara í Smáralind eða Kringluna þó það sé nú alltaf gaman ég gref bara aðeins innar í fataskápinn og finn eitthvað nýtt og fínt. Ég hef nefnilega oft keypt mér föt sem ég ætla svo bara að grenna mig í en hefur ekki orðið að veruleika fyrr en núna. Hvað er yndislegra en að setja XL fötin í poka og komast í M/L fötin. Að vísu fór ég með stelpunum í heilsuferðalaginu í AIR.IS í Smáralindinni ...aha ég í íþróttabúð eitthvað sem ég hef gert lítið af.Í AIR.IS sem er með NIKE íþróttafatnað missti ég mig. Mig langaði í allt. Við fengum að velja okkur fatnað í boði AIR.IS og það var svo gaman, og já ! ég passaði í þessi föt og nú er ég ansi fín í ræktinni. Ég er líka farin að finna föt sem passa á mig í fataskápnum sem hafa verið þar ónotuð í 3-4 ár það er ekki leiðinlegt. Sumarkjólar, leðurjakkinn, sandalarnir og berir leggir ...hér kem ég!

 


Að vera sykurlaus

Þá erum við stelpurnar í átakinu hálfnaðar. Þetta ferðalag hófst á því að taka ákvörðun um breyttan lífsstíl og við ákváðum einnig að sniðganga allan sykur. Það er nú meira mál en maður heldur því sykur leynist víða í allri fæðu. Fyrstu 2 vikurnar voru hreint helvíti fyrir mig. Bæði hætti ég að borða sykur og drekka gosdrykki þannig að ég átti eiginlega bara hrikalega bágt. Á þriðju viku fór ég að átta mig á því hve mikið betur mér leið. Líkaminn var ekki eins stífur og stirður, bólgur höfðu minnkað og bjúgur sem oft sótti á mig var algjörlega horfinn. Í dag er ég svo sátt við þessa ákvörðun. Það er hægt að bæta mörgu öðru góðu inn fyrir sykurát og nammipúkinn minn er gjörsamlega týndur og ég finn hann ekki þó ég reyni. Ég á mér uppáhalds "nammi" sem ég kaupi og varðveiti vel og enginn fær nema ég. Lífrænu döðlurnar hjá Gló eru nammið mitt, þegar ég uppgötvaði þessa dásemd varð ég sátt. Ég fer á föstudögum og kaupi mér laugardagsnammið mitt 3 stk. döðlur í brúnum bréfpoka og er eins og krakki í sælgætisbúð. Harðfiskurinn er líka nammið mitt og svo eru ávextir allt í einu orðnir svo góðir. Nammikaup á heimilinu hafa algjörlega stöðvast og gosdrykkir eru keyptir spari fyrir fjölskyldumeðlimi. Þar sem ég er innkaupastjóri heimilisins þá er innihald ískápssins orðið mun heilsusamlegra fyrir alla á heimilinu og enginn kvartar, sem kemur mér á óvart. Allir eru tilbúnir að prufa nýtt fæði, skipta út kartöflum fyrir sætar kartöflur, bygg í stað hrísgrjóna, hollt brauð í stað hveitibrauðs og sykurlaust álegg í stað þess sem er stútfullt af sykri. Já álegg inniheldur nefnilega sykur í flestum tilfellum. Núna er ég vongóð um að næstu 5 vikur verði bara algjör sæla. Ég finn að ég er að styrkjast og allt að verða auðveldara í ræktinni, kílóin hverfa og sólin hækkar á lofti - hvað gæti verið berta ? Gleðilegt sumar elskurnar !


Hjálp.... þetta er erfitt !

Vika 5 að byrja þetta flýgur áfram og af hverju er ég ekki orðin slank og fín? Aha....óþolinmæði það er vinkona mín og hún er alveg að gera út af við mig núna.Nú er á brattann að sækja og ekki má gefast upp. Það kannast allir við að byrja í átaki, breyta lífsstíl og vera í fullum eldmóði en svo bara gerist eitthvað. Allt verður erfitt og óyfirstíganlegt. Löngunin verður svakaleg í allt óhollt, aumingja ég glymur í kollinum á mér og kílóin hætta að hverfa eins hratt og í byrjun. Ég vorkenndi mér svolítið í dag. Búið að vera mikið að gera í vinnunni, leiðindar vetur, allir hafa það svo gott og eru svo sætir og fínir nema ég. En þetta þýðir ekkert, þetta gerir mér ekkert gott. 4 vikur, 7 kíló farin og tugir sentimetra. Bingóvöðvarnir á undanhaldi, styrkurinn að aukast, þolið allt að koma af hverju er ég ekki í skýjunum? Jú kannski af því ég er smá hrædd. Get ég staðist þetta, get ég haldið þessum líffstíl, get ég komið mér í kjörþyngd ? Hef ég nægilegt úthald og get ég einhvern tímann gert allar æfingarnar eins og þjálfarinn? Ég hef gert þetta svo oft og fallið í sama farið. En... það sem ég áttaði mig á þegar ég settist niður er að þetta verður allt til í hausnum á mér sjálfri. Ég þarf ekki að stóla á neinn nema sjálfa mig og af hverju í ósköpunum ætti ég að bregðast mér? Ég sem er alltaf til staðar fyrir alla aðra. Þá ákvað ég að skrifa í dagbókina mína allt það sem ég get verið þakklát fyrir. Marta María gaf okkur dagbók og kom með þessa hugmynd, mér fannst hún ekkert sniðug fyrst en þetta virkar. Bara að skrifa á eina blaðsíðu á hvejum degi þá hluti sem þú getur glaðst yfir þann daginn. Það þarf ekki að vera meira en bara fuglinn sem sat í trénu í morgun og söng, hann var glaður og kátur. Þetta safnast saman og þegar allt er í voli flettir maður bara í bókinni og les og allt verður svo miklu betra. Andlegur stöðugleiki þarf að vera til staðar til þess að þú getir gert varanlegar breytingar á lífsstílnum. Yfirleitt hef ég kveðið upp dauðadóm yfir líkamsræktarátakinu með því að ætla mér of mikið. Í orðinu átak felst sá skilningur að það sé erfitt og það verður erfitt en gaman. Svo má ekki gleyma stelpunum í ferðalaginu með mér. Fátt er betra en góður æfingafélagi,hann hvetur þig áfram í æfingum, rekur þig til að mæta, fylgist með árangrinum þínum og spyr þig reglulega hvort þú hafir nokkuð svindlað og hrósar óspart fyrir dugnaðinn. Ég er á góðum stað og mun halda ótrauð áfram.


Hlustaðu á líkamann !

Nú hef ég lokið viku 3 í 10 vikna átakinu. Fór létt með páskatörnina mér til mikillar furðu.Í byrjun vorum við settar vel inn í allt sem var í boði í Hreyfingu og kennarar okkar þar endurtóku í sífellu "Nr. 1 hlustaðu á líkamann, nr.2 hlustaðu á kennarann og svo gerið þið hlutina á ykkar hraða". Þetta syngur í hausnum á mér í dag því líkaminn öskrar hástöfum á mig. 3 vikna púl eftir margra ára kyrrsetu á MÍNUM hraða er auðvitað bara bull. Ég er nefnilega þannig kona að ég sit aldrei auðum höndum. Ef ég kem heim eftir fullan vinnudag þá er það þvotturinn, ekki má vera neinn óhreinn þvottur í lok dag í óhreinatauskörfunni,nú af hverju ekki ? hvað gæti gerst ? Nú svo þarf að vera hreint og fínt heimavið ef forsetnn skyldi nú kíkja í heimsókn... glætan. Nú tölum ekki um bílinn á bílaplaninu hann verður lika að vera hreinn þó að það sé smá frost úti og él, auðvitað þríf ég bílinn en til hvers ? Ég fer á honum út í búð eftir smá stund og þá verður hann jafn skítugur. En þetta er bara ég, kann ekki að slappa af. Finn mér alltaf eitthvað verkefni nú ef ég finn þau ekki þá leita ég eftir þeim. En núna ætla ég að reyna, já reyna að hætta þessu rugli. Hlusta á líkaman því nú er hann að segja STOP. Ég er búin að skipuleggja mataræðið og nú þarf ég að skipuleggja aflöppunartíma og ætla að byrja á því um helgina. Hmmmm um helgina, nei í dag ! Nú ætla ég að fara að nýta saunaklefann og heitu pottana í Hreyfingu til hins ítrasta og jafn vel splæsa á mig góðum nuddtíma og þvotturinn, heimilið og bíllinn verður í einhverju sæti mjög neðarnega. Núna verða fjölskyldumeðlimir virkjaðir í þau störf og ÉG ætla að hlusta á líkamann !


Hættutími nálgast !

Jól, bolludagur, sprengidagur, páskar, sumarfrí, veislur, helgar, allt eru þetta dagar sem vekja kátínu hjá fólki. Fólki sem hefur ekki áhyggjur af holdarfari og getur leyft sér að eiga marga "sukkdaga" í röð. Það get ég ekki! Nei, þessi tími sem nú gengur í garð er martröð fyrir þann sem þarf að passa upp á holdafarið. Nóg er fyrir mig að horfa á páskaeggin í verslununum og ég finn hvernig lærin þenjast út. Margir sem burðast með aukakílóin kannast við þetta, horfa á konfektmolann og tertusneiðina og buxurnar þrengjast. Það er alla vega tilfinningin hjá mér og þá er bara best að láta hugan svífa og einbeita sér að einhverju öðru. Þar sem ég er innkaupastjóri heimilisins eru gerðar kröfur til mín á þessum tímamótun, baka tertur, búa til ís,  hafa rjómasósu með lambinu og lítil páskaegg með ísnum. Hafa snakk og ídýfur, nammikvöld og fleira girnilegt á boðstólum. Nú veður þessu snúið við. Vissulega verður lambalæri á borðum en meðlætið verður hollt og gott, ísinn verður gerður úr frosnu mangó, drykkurinn verður ískalt vatn með fullt af klökum og snakkið verður niðurskorið grænmeti með hollri ídýfu. Notast verður við matreiðslubókina hennar Mörtu Maríu "MMM" sem við stelpurnar fengum að gjöf við upphaf þessarar ferðar. Ég hvet ykkur til að fá ykkur hana, ég hef gleymt mér stundunum saman við lestur og pælngar um sykurlausar hollar kræsingar og þar er líka kafli sem mér er bannað að kíkja á strax "Guilty Pleasures"en vonandi verð ég einhverntímann í formi til að prufa það sem þar leynist. Vitið hvað... enginn hefur mótmælt þessu plani,allir eru til í að hjálpa til að koma innkaupastjóranum í form sem er bara rosalega hvetjandi.Mitt páskaegg verður bláberjafata með páskaunga á toppnum og ég á eflaust eftir að sja til þess að hundurinn fái hreyfingu meðan allir aðrir á heimilinu og víðar verða dofnir í sófanum eftir súkkulaðiát frá morgni til kvölds. Gangið hægt um gleðinnar dyr, njótið páskafrísins ég ætla að standast allt álagið, það verður erfitt en stuðningur ykkar allra í kring um mig hefur komið á óvart og ég Get, Ætla og Skal Gleðilega páska !


Lífsstíll krefst skipulagningar

Ég hef alltaf talið mig mjög skipulagða mannveru. Heimili mitt er skipulagt, allt á sinn stað og stöðu á heimilinu, börnin mæta á réttum tíma í skólann með sitt nesti og rétt vinnutól í töskunum. Fötin mín eru röðuð í litaröð í fataherberginu og herbergi barna minna eru skipulögð í hólfum og boxum.Já, ég er skipulögð ! En... af hverju er þá alltaf allt í rúst sem kemur mér sjálfri við. Ég skipulegg ekki mataræði mitt, ákveð ekki fram í tímann að hreyfa mig, set alltaf sjálfa mig í síðasta sæti. En hingað og ekki lengra! Nú er komið að mér. Lífsstíll krefst skipulagningar. Ég þarf að skipuleggja næsta dag til að allt fari eins og það á að fara og það gengur bara vel.Ég er núna númer eitt allir aðrir í fjölskyldunni hafa átt forgang. Nú vel ég fram í tímann hvað ég ætla að hafa í nesti, hvað ég borða í morgunmat, hádegi, millimál og á kvöldin, versla inn í samræmi við það, passa að undirbúa morgundaginn kvöldinu áður. Ég vissi þetta alveg, margir búnir að segja mér þetta og ég hef lesið um þetta í gegn um tíðina en aldrei farið alla leið. Það sem mest kemur á óvart að óreiðan í sjálfri mér en að róast. Ég þarf ekki lengur að hlaupa út í búð að kaupa eitthvað sem vantar og lenda í óhollustupúkanum í leiðinni. Allt er komið í boxin í ísskápnum og tilbúið ! Skipulagning er málið og ég klára viku 2 með stæl!

 


Heppni eða lífsstíll ?

"Rosalega varstu hepppin" hljómar í eyrum mínum þessa dagana því mér áskotnaðist að fá að taka þátt í 10 vikna heilsuátaki Hreyfingar og Smartlands. Já ÉG var valin í hóp 5 kvenna til að standast 10 vikna lífsstílsbreytingu. HEPPNI ? Já ég tel mig gífurlega heppna og ætla að nýta þetta frábæra tækifæri og breyta um lífsstíl. Nú fæ ég leiðsögn, verkfæri, frábæra aðstöðu og leiðbeiningar frá fagfólki sem kann til verka til að breyta lifnaðarháttum mínum sem í mörg ár, eða eiginlega frá því ég man eftir mér, hefur verið í rugli.... já algjöru rugli. Líf mitt einkenndist af megrunum, kúrum, matarfíkn, hömlulausu áti, þunglyndi og pirring og aftur megrunum og átökum. Ég hef sem sagt frá því ég var 14 ára verið eins og hömlulaust jójó upp og niður. En nú er komið að því, ég er orðin þroskuð, veit hvað ég vil,hef staðfestu og þor til að standast þetta og breyta mínum lífsstíl til frambúðar. Ég hef ykkur, vinina, samstarfsfólk og fjölskyldu til stuðnings og met það mikils.Ég hef "stelpurnar 4" með mér, Önnu Eiríks einkaþjálfara, Mörtu Maríu "stuðboltann minn" og Hrafnhildi Evu næringarráðgjafa og frábæra aðstöðu hjá Hreyfingu. Dagur 4 er að kveldi kominn, ég er búin að standast freistingar og búin að æfa upp á hvern dag....mér líður vel og ég er HEPPIN !


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband